Innlent

Akstursbann ekki komið í gildi

Ásgeir Eiríksson, framkvæmdastjóri Strætó bs., segir trúlega ekki enn hægt að beita ökumenn viðurlögum sem stelast til að aka eftir nýjum akreinum sérmerktum Strætó í Reykjavík. "En það gerist um leið og lögreglan er búin að auglýsa þetta," segir hann og telur þá úrvinnslu hljóta að vera á næsta leiti, enda allt annað til reiðu. Ásgeir segist ekki geta svarað fyrir merkinguna BUS á akreinunum. "Framkvæmdin er á vegum sveitarfélagsins sem á sínum tíma stakk upp á að hafa þetta annars vegar lógóið og hins vegar BUS, svona í samhengi við alþjóðlega staðla." Hann útliokar þó ekki að skammstöfunin gæti líka staðið fyrir "Byggðasamlag um samgöngur." Þá segist Ásgeir ekki geta svarað því hvort leigubifreiðum verði heimill akstur á sérmerktu akreinunum líkt og er erlendis og taldi borgaryfirvöld eða lögreglu skera úr um það. "En ég hygg að við myndum nú ekkert amast við því, ef það á annað borð ekki veldur okkur sérstökum töfum. Til sanns vegar má færa að leigubílar séu líka almenningssamgöngur."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×