Innlent

Aron Pálmi á heimleið

Yfirgnæfandi líkur eru á því að Aron Pálmi Ágústsson sé í þann veginn að fá frelsi. Nafn hans er nú á lista sem löggjafarþing Texas hefur tekið saman yfir fanga sem það mun leggja til við ríkisstjóra Texas á næstu dögum að verði látnir lausir. Jafnvel er búist við að Aron Pálmi verði kominn til landsins eftir viku til tíu daga. Afgreiðsla málsins hefur tafist nokkuð vegna sumarleyfa og þá hefur ríkisstjórinn Rick Perry verið í kosningaferðalögum. Einar S. Einarsson, formaður stuðningshóps Arons, segir að mál hans hefði að öllum líkindum gleymst hefði því ekki verið fylgt eftir. "Núna eru þrír mánuðir síðan við hófum þessa baráttu. Málið hefur verið rekið með mildi og miskunn að leiðarljósi." Að sögn Einars er það fyrst og fremst formsatriði að ríkisstjórinn mæti á skrifstofuna og staðfesti lista þingsins. "Það myndi heyra til mikilla undantekninga ef hann gerði það ekki," segir Einar. "Nú má segja að niðurtalningin sé hafin."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×