Innlent

Gustar um Glaðheima

"Áhuginn fór fram úr björtustu vonum," segir Guðbjartur Ingibergsson verktaki, sem er í forsvari fyrir hóp sem gert hefur tilboð í hesthúsin í Glaðheimum á Gustssvæðinu í Kópavogi. Að sögn hans hafa tíu prósent eigendanna nú þegar skrifað undir, álíka margir séu að því komnir að skrifa undir og verið sé að ræða við um 15 prósent til viðbótar sem vilji ganga til samninga. Glaðheimar eru gegnt Smáralindinni í Kópavogi og hafa verið þar síðan 1968. Kópavogur hefur verið að byggjast í kringum svæðið síðustu áratugi og margir verktakar hafa áhuga á svæðinu undir byggingar. Guðbjartur segir engar framkvæmdir muni hefjast á næstunni. Allir sem skrifi undir fái húsin til afnota endurgjaldslaust í tvö ár. Mikil andstaða kom fram við tilboðið á fundi félagsmanna á mánudagskvöldið. "Við teljum þetta vera aðför að starfandi íþróttafélagi í Kópavogi," segir Þóra Ásgeirsdóttir, formaður hestamannafélagsins Gusts. "Slíkt er alvarlegt mál. Ég veit ekki um neinn sem skrifað undir bindandi kauptilboð." Guðbjartur segir enga spurningu hvort það verður byggt þarna, heldur hvenær. Hann fullyrðir að flestir hestamenn geri sér grein fyrir því að þetta sé ekki framtíðarsvæði þeirra. Því mótmælir Þóra alfarið. "Ég spyr á móti: Við hvaða hestamenn er hann að tala?". Hún segir um 200 félagsmenn hafa mætt á fundinn og enginn þeirra hafi virst þessarar skoðunar. Gunnar I. Birgisson bæjarstjóri í Kópavogi segir það koma á óvart ef svo margir hafi skrifað undir. Kópavogsbær á landið en leigir hestamannafélaginu Gusti það, og á félagið forkaupsrétt í hesthús félagsmanna á lóðunum.Hann ítrekar að bærinn hafi leigt Gusti þetta svæði fram til ársins 2038. "Þessir verktakar geta ekki byggt eitt né neitt nema Kópavogsbær breyti deiliskipulaginu og við ætlum okkur ekki að gera það." Að sögn Guðbjarts mun stjórn Gusts fá að sjá þá samninga sem gerðir hafa verið á næstu dögum vegna forkaupsréttarins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×