Innlent

Vilja ekki unglingafangelsi

Ungur piltur sem ásamt fjórum öðrum rændi starfsmanni Bónuss á Seltjarnarnesi, hefur komið við sögu fjölda afbrotamála. Einungis fimmtán ára sat hann í gæsluvarðhaldi í fjörutíu daga. Þá var hann einnig úrskurðaður í gæsluvarðhald nokkrum dögum fyrir sextán ára afmælið sitt í mars. Pilturinn sem er úr Kópavogi hóf feril sinn á Litla Hrauni fimmtán ára eða fyrsta nóvember í fyrra. Þá sat hann í svokölluðu síbrotagæsluvarðhaldi, í alls fjörutíu daga eða til tíunda desember. Hann fékk í kjölfarið fimm mánaða fangelsisdóm þar af einn mánuð skilorðsbundinn en það hafði hann þegar setið af sér í varðhaldinu. Þann ellefta mars var hann aftur handtekinn og þá úrskurðaður í svokallað rannsóknargæsluvarðhald í fjóra daga. 21. júlí var hann úrskurðaður í sextán vikna gæsluvarðhald. Í framhaldinu fékk hann sextán mánaða fangelsisdóm, þar af voru þrettán skilorðsbundnir. Hann gekk hinsvegar laus þar sem áfrýjunarfrestur í máli hans var fjórar vikur. Hann var svo handtekinn á föstudag fyrir mannrán eins og áður sagði og situr nú í viku gæsluvarðhaldi. Hrefna Friðriksdóttir, lögfræðingur Barnaverndarstofu, segir að gerður hafi verið samningur við Fangelsismálayfirvöld fyrir nokkrum árum um að ungum föngum byðist að afplána dóma í meðferð, en það væri þó háð þeirra samþykki. Hún segist ekki telja grundvöll fyrir barna og unglingafangelsi og segir það vera af praktískum ástæðum þar sem komið geti fyrir að enginn í þessum aldurshópi þurfi fangelsisvist nokkur ár í röð eða jafnvel tveir og þeir komi jafnvel ekki á sama tíma. Erlendur Baldursson, afbrotafræðingur hjá Fangelsismálastofnun, segir þá ungu fanga sem eiga í hlut í slíkum málum oftar en ekki hafa verið í einskonar barnafangelsum á vegum yfirvalda frá unga aldri. Þegar svona sé komið sé ekki hægt að horfa fram hjá því að þeir séu orðnir gallharðir afbrotamenn. Hann segir það að vera að mörgu leyti mjög óheppilegt að smala unglingum saman á einn stað í fangelsi. Hann vonast hinsvegar eftir því að ný fangelsislög komi þessum mönnum vel sem og fleiri aðgerðir í fangelsismálum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×