Innlent

Ekkert land heimilar ættleiðingu

"Eins og staðan er í dag getum við ekki sent út umsókn um ættleiðingu frá samkynhneigðu pari," segir Ingibjörg Jónsdóttir, formaður Íslenskrar ættleiðingar. "Samstarfslönd okkar vinna eftir sinni löggjöf og ekkert þeirra landa sem við erum í sambandi við heimilar ættleiðingar til samkynhneigðra." Ríkisstjórnin samþykkti á þriðjudag undirbúning frumvarps sem tekur á réttarstöðu samkynhneigðra. Meðal þess sem leggja á til í frumvarpinu er að heimila ættleiðingar samkynhneigðra erlendis frá. Ingibjörg segir samtökin fylgjast vel með málum í Svíþjóð en þar hafa ættleiðingar samkynhneigðra para verðir leyfðar um nokkurt skeið. Ein umsókn liggur á borði stærstu ættleiðingarskrifstofunnar þar í landi en sú umsókn hefur ekki verið send utan þar sem ekkert land hefur fundist sem tekur við henni. Ingibjörg segist ekki telja að lögleiðing ættleiðinga samkynhneigðra geti haft slæm áhrif á möguleika annarra til að ættleiða börn erlendis frá. Ástæða sé þó til þess að stíga varlega til jarðar, enda málaflokkurinn viðkvæmur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×