Erlent

Efnafræðingurinn ekki í al-Kaída

Innanríkisráðherra Egyptalands, Habib al-Adli, segir "efnafræðinginn" svokallaða ekki vera í neinum tengslum við hryðjuverkasamtökin al-Kaída. Hann sætir nú yfirheyrslum í Egyptalandi sem breskir lögreglumenn fylgjast grannt með. Efnafræðingurinn, Mahmoud al-Nashar, hefur hingað til neitað staðfastlega allri hlutdeild sinni í hryðjuverkaárásunum. Lögregla hefur engu að síður fundið leifar af sprengiefni, líklega af sömu gerð og notuð var í árásunum, á heimili al-Nashar. Tony Blair forsætisráðherra Bretlands sagði í ræðu sem hann hélt í miðborg Lundúna í gær að baráttan væri nú háð gegn illri hugmyndafræði öfgasinnaðra múslima. Í slíkri hugmyndafræðibaráttu þyrfti að vinna hug og hjörtu fólks, bæði múslima og annarra. Rannsókn lögreglu á hryðjuverkunum gengur vel og í gær var strætisvagninn á Tavistock Square hífður burtu. Fjöldi manns fylgdist með enda er strætisvagninn orðinn að nokkurs konar táknmynd árásanna. Búið er að bera kennsl á lík 41 af 55 fórnarlömbum árásanna og nafngreina 31 þeirra. Rannsóknin beinist nú að borginni Leeds en þar bjuggu margir hinna grunuðu. Vinir og kunningjar þeirra sem grunaðir eru um aðild að árásunum eru margir hverjir agndofa. Allir voru þeir breskir ríkisborgarar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×