Innlent

Hjartavernd hægir á rannsóknum

Hægja þarf á rannsóknum vegna minnkandi tekna.
Hægja þarf á rannsóknum vegna minnkandi tekna.

Samdráttur í tekjum Hjartaverndar leiðir til þess að hægt verður á framkvæmd rannsóknarverkefna félagsins, að sögn Vilmundar Guðnasonar forstöðulæknis. Samdrátturinn stafar einkum af hinni gríðarlega óhagstæðu gengisþróun og kostnaðarhækkunum innanlands.

Í lok janúar næstkomandi verða fimm ár liðin frá því að Öldrunar­rannsókn Hjartaverndar hófst. Rannsóknin er samstarfsverkefni Hjartaverndar og bandarískra heilbrigðisyfirvalda og ein stærsta faraldsfræðilega rannsókn á heimsvísu á heilbrigði öldrunar. Í dag hafa hátt í sex þúsund einstaklingar tekið þátt í henni.

Á þessari rannsókn verður nú að hægja, sem felur í sér umtalsverða fækkun starfa eða sem nemur 35 starfsmönnum sem nú hefur verið sagt upp. Hjartavernd er með stærstan hluta sinna tekna í erlendum myntum og nánast allan kostnað í krónum. Hefur þetta meðal annars þau áhrif að þeir fjármunir sem áætlað var að nýta til Öldrunarrannsóknarinnar munu ekki nægja.

"Við erum áfram með nær fjörutíu manns í vinnu, bæði í þessu verkefni og öðrum," segir Vilmundur. "Við erum með margar rannsóknir auk öldrunarrannsóknarinnar. Núna erum við til dæmis að byrja á nýrri áhættuþáttakönnun. Þá erum við með þjónusturannsóknir fyrir aðra. Meginuppistaðan er náttúrlega öldrunarrannsóknin en við þurfum ekki að hætta við neitt af fyrirhuguðum verkefnum, heldur drögum við saman seglin í tíma, svo við förum ekki í kaf."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×