Innlent

Fá 57 milljónir í stað 40

Héraðsdómur Vestfjarða dæmdi í gær Bolungarvíkurkaupstað til að greiða eigendum þriggja húsa við Dísarland í Bolungarvík rúmar 57 milljónir auk vaxta í eignarnámsbætur. Olgeir Hávarðarson, eigandi eins hússins, segir þetta í það minnsta einn áfanga og fagnar því, þótt óljóst sé hvort kaupstaðurinn áfrýji dómnum til Hæstaréttar. Húsin við Dísarland og Traðarland voru öll metin á snjóflóðahættusvæði og var ákveðið árið 2001 að reisa snjóflóðavarnargarð þar sem húsin standa nú. Ákvað þá kaupstaðurinn að taka húsin eignarnámi og var óskað eftir mati matsnefndar eignarnámsbóta. Matið hljómaði upp á rúmar 57 milljónir fyrir þessi þrjú hús. Bolungarvíkurkaupstaður vildi síðar að mati nefnarinnar yrði hnekkt og markaðsvirði greitt fyrir húsin, um 40 milljónir. Héraðsdómur staðfesti að greiða ætti samkvæmt mati matsnefndar, en ekki markaðsvirði, fyrir eignarnám auk dráttarvaxta. Þá ber Bolungarvíkurkaupstað að greiða tvær milljónir í málskostnað. Ofanflóðasjóður greiðir níutíu prósent af markaðsvirði fasteignanna, um 36 milljónir. Kaupstaðurinn mun því þurfa að greiða 21 milljón auk vaxta og málkostnaðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×