Innlent

Prófmál í Bolungarvík

Héraðsdómur Vestfjarða dæmdi í morgun Bolungarvíkurkaupstað til að greiða eigendum þriggja húsa á snjóflóðahættusvæði í bænum rúmar fimmtíu og sjö milljónir króna, sem er nokkuð hærra en bærinn vildi borga. Bæjarstjóri segir að um prófmál sé að ræða. Héraðsdómur Vestfjarða dæmdi í morgun Bolungarvíkurkaupstað til að greiða eigendum þriggja einbýlishúsa á snjóflóðahættusvæði í Bolungarvík rúmar 57 milljónir króna. Ástæðan er að árið 2001 létu bæjarsjóður og Ofanflóðasjóður meta eignirnar og í kjölfarið gerði bæjarstjórn húseigendunum tilboð í eignirnar uppá 39,5 milljón króna. Eigendur húsanna þriggja höfnuðu hins vegar tilboðinu. Síðla árs 2001 ákvað bæjarstjórn síðan að taka húseignirnar eignanámi með heimild í lögum um varnir gegn snjóflóðum. Í framhaldinu var óskað eftir mati matsnefndar eignarnámsbóta og um mitt árið 2002 úrskurðaði nefndin að bætur skyldu miðast við enduröflunarvirði eignarinnar, samtals fyrir húsin þrjú rúmar 57 milljónir króna. Bæjarstjórn sætti sig ekki við þennan úrskurð og vildi láta hnekkja mati nefndarinnar en því var hafnað. Þegar þarna var komið við sögu ákvað bæjarstjórnin að fara í mál við húseigendurna þrjá og var þess krafist að þeir yrðu dæmdir til að gefa út afsal til bæjarins fyrir fasteignirnar, gegn því að bærinn myndi greiða tæpar 40 milljónir fyrir eignirnar. Í mati dómsins kemur fram að í ljósi þess hve eignirnar eru í góðu ástandi, eigi Bolungarvík að greiða húseigendunum rúmar 57 milljónir fyrir eignirnar. Einar Pétursson, bæjarstjóri í Bolungarvík, segir að bæjarstjórnin sé ekki búin að ákveða hvort hún muni áfrýja dómnum. Aðspurður um það hvort ekki hefði verið ódýrara og einfaldara að semja beint við fólkið, sagði hann að vissulega hefði það verið einfaldara en að bíða í 4-5 ár. En það reyndist ekki unnt. Hann sagði einnig að ekki færi saman matsverð eignarnámsbóta og þess sem Ofanflóðasjóður vill greiða og því sé farin þessi leið. Einar segir að um prófmál fyrir önnur sveitarfélög sé að ræða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×