Innlent

Verðbólgukippur í aðsigi

KB-banki spáir því að verðbólga taki kipp á næstu mánuðum. Ekkert lát er á hækkun fasteignaverðs. Nýjasta vísitölumæling sýnir hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 3,4 prósent á aðeins einum mánuði og hækkun á sérbýli um 50 prósent á einu ári. Greiningadeildir KB-banka og Landsbankans vekja báðar athygli í dag á nýjum tölum Fasteignamats ríkisins, sem sýna að 3,4 prósenta hækkun varð á vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu í júlímánuði. Þetta þýðir að fasteignaverð hefur hækkað um liðlega 20 prósent á síðustu sex mánuðum og um nærri 40 prósent á síðustu tólf mánuðum. Sérbýli hefur hækkað enn meira eða um 50 prósent á einu ári. KB-banki segir að mikil hækkun fasteignaverðs í júlímánuði muni koma af töluverðum þunga inn í vísitölu neysluverðs við næstu mælingu. Þar sem fasteignamarkaðurinn hafi verið einn helsti verðbólguvaldurinn á síðastliðnum tólf mánuðum og þar sem tólf mánaða verðbólguhraðinn í júní hafi, án húsnæðisliðar, mælst einungis 0,1 prósent, megi búast við því að vísitala neysluverðs muni taka kipp á næstu mánuðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×