Erlent

Fréttamönnum vísað úr landi

Þúsundir manna hafa á ný safnast saman í borginni Andijan í Úsbeskistan þar sem tugir manna féllu í blóðugum bardögum í gær. Erlendum fréttamönnum hefur verið vísað frá borginni. Ekki hafa borist áreiðanlegar tölur um mannfall í Andjaan en hinir látnu  eru sagðir skipta tugum. Læknir sem haft var símasamband við vissi ekki um manntjón en sagði að komið hefði verið með 96 særða á sjúkrahúsið þar sem hann vinnur. Fólkið var að mótmæla einræðisstjórn Islams Karimovs forseta sem hefur stjórnað landinu frá 1989. Skæruliðar meðal mótmælendanna frelsuðu nokkrar félaga sína úr fangelsi og hertóku opinbera byggingu í Andijan. Hersveit var send á vettvang og hóf hún skothríð á mannfjöldann. Öryggissveitir í Andijan skipuðu í dag erlendum blaðamönnum að yfirgefa borgina þar sem þær gætu ekki tryggt öryggi þeirra kæmi til frekari átaka. Var þeim gefinn hálftími til að hafa sig til bæjarins Shakhrikhan sem er 30 kílómetra vestur af Andijan. Karimov forseti fullyrti í dag að enginn hefði gefið hernum skipun um að skjóta á fólkið. Óttast er að til frekari óeirða komi í dag með enn meira mannfalli. Evrópusambandið hefur sakað Karimov forseta um að bera ábyrgð á ástandinu en Rússar segja hins vegar að þeir styðji hann í einu og öllu. Úsbekistan er í Mið-Asíu og á landamæri að Afganistan en það er á stærð við Svíþjóð. Landið var áður eitt af lýðveldum Sovétríkjanna. Íbúar þar eru um 26 milljónir. Úsbekistan er nokkuð stöndugt ríki miðað við það sem gerist í þessum heimshluta. Þar eru miklar birgðir af olíu og gasi í jörðu. Landið er eitt af tíu mestu gullútflutningsríkjum heims og eitt af fimm mestu ullarframleiðendunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×