Innlent

Enginn hafi gengið að tilboði

Hesthúsaeigendum í Kópavogi barst skömmu fyrir mánaðamót tilboð frá óstofnuðu hlutafélagi í hesthús á svokölluðu Gustssvæði ofan við Smáralindina. Tilboðið rann út í gær og ekki er vitað til þess að nokkur hafi gengið að tilboðinu. Formaður Hestamannafélagsins Gusts, Þóra Ásgeirsdóttir, segist ekki vita til þess að nokkur hafi gengið að tilboði sem barst frá óstofnuðu hlutfélagi Guðbjarts Ingibergssonar og Kristjáns Ríkharðssonar í hesthúsin á Gustssvæðinu í Kópavogi. Tilboðin runnu út í gær en þau hljóðu upp á 80 þúsund krónur fyrir hvern fermetra á gömlum húsum og 100 þúsund krónur fyrir fermetran í nýlegri húsum. Mennirnir sem að tilboðinu stóðu sögðu í samtali við fréttastofu í gær að tilboðin væru ekki gerð í samráði við Kópavogsbæ. Hestamenn óttuðust að mennirnir ætluðu sér að byggja íbúðir eða verslunarhúsnæði á svæðinu. Í samtali við annan mannanna í gær vildi hann hins vegar ekki gefa uppi hvað þeir ætluðu sér með hesthúsin og landssvæðið sem þau eru á. Þóra Ásgeirsdóttir segir að um aðför að hestmannafélaginu Gusti hafi verið að ræða þar sem ekkert samráð hafi verið haft við stjórn félagsins. Þeim þykir málið allt hið undarlegasta þar sem Gustur hafi nú þegar forkaupsrétt á svæðinu en sé þar fyrir utan með leigusamning við Kópavogsbæ sem gildir til ársins 2038.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×