Innlent

Bónuspakk og bankastjórahyski

Sigmundur Sigurgeirsson, svæðisstjóri Ríkisútvarpsins á Suðurlandi, vinnur ekki framar fréttir fyrir útvarpið vegna ummæla sem hann lét falla á bloggsíðu sinni, www.skeljafell.blogspot.com. "Vegna þess dómgreindarleysis sem Sigmundur hefur sýnt með harkalegum og ósæmilegum ummælum á bloggsíðu sinni um forráðamenn Baugs og KB banka treystum við honum ekki framar til að vinna fréttir fyrir okkur," segir Óðinn Jónsson, fréttastjóri útvarpsins, en hann og Bogi Ágústsson forstöðumaður fréttasviðs tóku þessa ákvörðun. Sigmundur talaði meðal annars um Bónus pakk og "hyski af ódýrustu sort". Þá talaði hann um "andskotans bankastjórahyski í KB banka" í sömu færslu. Sigmundur tók bloggfærsluna út og baðst afsökunar á ummælunum eftir að blaðamenn DV hringdu í hann vegna þeirra. Ekki er víst að máli ljúki með þessu, en Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri hefur beðið lögfræðing Ríkisútvarpsins um að fara yfir skrif Sigmundar, sem er enn starfsmaður hjá stofnuninni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×