Innlent

Senda börn heim vegna manneklu

Foreldrar barna í leikskólanum Klettaborg í Grafarvogi þurfa að vera með börnin sín heima tvo daga næstu tvær vikurnar sökum manneklu í leikskólanum. Leikskólastjórinn segist vita til þess að ástandið sé svipað í fleiri leikskólum. Á leikskólanum Klettaborg hefur eins og víðar gengið afskaplega erfiðlega að ráða starfsfólk í upphafi leikskólaárs. Enn hefur ekki tekist að manna í fjögur stöðugildi og því ekki um annað að ræða en að grípa til örþrifaráða. Lilja Eyþórsdóttir leikskólastjóri segir að sú erfiða ákvörðun hafi verið tekin að senda heim börn heim á hverjum degi. Byrjað verði á því í næstu viku og 14 börn af leikskólanum verði send heim daglega. Þannig verði það í tvær vikur. Hvert barn þarf því að vera heima hjá sér tvo daga á næstu tveim vikum, en síðan verður staðan endurmetin og þá kemur í ljós hvort foreldrar þurfi áfram að vera með börn heima. Aðspurð hvort foreldrarnir fái dagana endrugreidd játar Lilja því en bendir á að þeir myndu annars þurfa að borga tvöfalt fyrir að fá að hafa börnin á staðnum. Það sé því miður ekki hægt. Eins og gefur að skilja bitnar ástandið þó fyrst og fremst á börnunum sjálfum og Lilja segir það verst þeirra vegna að grípa þurfi til þessara aðgerða. Aðspurð hvort hún viti af fleiri leikskólum í sömu stöðu segir Lilja að hún telji að það séu einhverjir þótt geti ekki nefnt þá. Einhverjir hafi sent börn heim eða séu að byrja á því. Lilja segir ástandið nú ekki einsdæmi, en þó með því versta sem upp hafi komið. Það eina sem hægt sé að gera til að aflétta ástandinu sé að hækka laun leiðbeinenda sem séu afleit. Til marks um hve illa starfsfólk haldist á leikskólum umgangist hvert barn að jafnaði á milli 25 og 30 starfsmenn á aðeins fjögurra ára leikskólaferli. Því má bæta við að borgarráð ákvað á fundi sínum í dag að falla frá því að hækka leikskólagjöld fyrir börn námsmanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×