Innlent

Mannekla á hjúkrunarheimilum

MYND/Róbert
Forstjóri Hrafnistu segir sjaldan hafa gengið jafn illa að ráða í stöðugildi á hjúkrunarheimilinum og núna. Margt kemur til eins og lág laun og hversu snemma skólafólkið lýkur sumarstörfum. Sveinn H. Skúlason, forstjóri Hrafnistu, segir fólk vanta í um 30 stöðugildi. Skólarnir byrja svo snemma að ekki tekst að brúa bilið þar til sumarfríum lýkur. Brugðið hefur verið á það ráð að fá fólk til að taka aukavaktir og hefur fólk jafnvel verið kallað úr sumarleyfum. Á meðan ástandið er svona slæmt er ekki hægt að taka inn nýtt heimilisfólk. Aðspurður hvernig samkeppni við frjálsa markaðinn um stafsmenn gangi segir Sveinn að forsvarsmenn hjúkrunarheimila séu bundnir af daggjöldum og ákveðnum kjarasamningum. Flest heimilanna séu við núllið eða rekin með taprekstri og ekki sé hægt að yfirbjóða eða hækka laun. Sveinn segir að til þess að ná í fólk til starfa þurfi að höfða til þess hversu gefandi umönnunarstörf eru. Ekki sé boðið í pyngjuna heldur skemmtileg og gefandi störf. Sveinn segir um 70 prósent starfsfólks Hrafnistu starfa um langt skeið. Mesta hreyfingin er á ungu fólki, það skipti örar um vinnu bjóðist því betri laun. Aðspurður hvort það komi til greina að falast eftir atvinnuleyfum fyrir útlendinga til fá fólk í laus störf segir Sveinn að forsvarsmenn Hrafnistu hafi ekki viljað ráða fólk sem ekki tali íslensku í aðhlynningarstörf, það sé ákveðin vinnuregla. Útlendingar vinni fyrst og fremst við ræstingar og séu traustir og góðir starfsmenn en Hrafnista vilji ekki bjóða íbúum þar upp á starfsmenn í aðhlynningu sem ekki ráði yfir lágmarkskunnáttu í íslensku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×