Innlent

Reykholtskirkja fær velgjörðarmann

Kirkjan í Reykholti hefur eignast norskan auðjöfur sem velgjörðarmann, en hann hefur styrkt kirkjuna um milljónir króna síðustu tvö ár. Velgjörðarmaðurinn heitir Jan Petter Röed og auðgaðist gífurlega á olíufyrirtæki sem hann rak um árabil. Fyrir tveimur árum millilenti hann á Íslandi og það var leigubílstjóri sem leiddi hann að Reykholti. Sannkallað happaspor fyrir þennan fornfræga stað. Séra Geir Waage, sóknarprestur í Reykholti, segir að konan sín hafi tekið á móti honum þar sem messa hafi staðið yfir. Eftir messu hafi þeir sest á tal, en komið hafi í ljós að hann sé ákaflega vel að sér um bókmenntir og sögu Íslands þrátt fyrir að hann hafi aldrei komið hingað áður. Jan Petter hreifst af sögu kirkjunnar og vildi kynna sér hvernig framkvæmdirnar hefðu verið kostaðar. Í framhaldinu vildi hann kynna sér kirkjureikningana. Geir segir að Jan Petter hafi fundist að kikjan væri að borga of mikið af vöxtum og um það hafi þeir verið sammála. Til þess að gera langa sögu stutta hafi hann hringt daginn eftir að hann fór af landi og beðið um reikningana. Í framhaldi af því hafi hann viljað hjálpa við að greiða niður verstu skuldirnar, en hann hafi sent 200 þúsund bandaríkjadali til þess. Geir segir að eftir þetta hafi hann komið nokkrum sinnum í Reykholt og þegar hann hafi komist að því að ekki væru til peningar til að klára kirkjuturninn og koma klukkunum þangað upp hafi hann einnig gefið peninga fyrir því. Verið sé að vinna að þessu núna. Og það var meira sem hann gerði fyrir kirkjuna. Hann sendi peninga fyrir uppsetningu á stiga upp í turninn og allur kostnaður sem hlýst af uppsetningu klukknanna er einnig greiddur af honum. Ein klukkan verður til minningar um velgjörðarmanninn. En þrátt fyrir rausnarlega velgjörðarmanninn þarfnast kirkjan peninga. Hafin er söfnun til að koma upp steindum gluggum í kirkjunni, en fyrir tveimur árum fékk kirkjan tvo stafnglugga að gjöf eftir Valgerði Bergsdóttur myndlistarmann. Geir segir að draumurinn sé að safna fé fyrir hliðargluggunum þannig að þeir verði komnir í kirkjuna á tíu ára vígsluafmæli hennar, 29. júlí á næsta ári. Allra heilagra messa er fyrsta sunnudag í nóvember en þá verður messað í Reykholtskirkju og er vonast til þess að klukkurnar verði þá komnar upp og að velgjörðarmaðurinn mæti til messunnar. Þeir sem vilja styrkja gerð steindra glugga í kirkjunni er bent á reikning í Sparisjóði Mýrarsýslu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×