Sport

Breyttir tíma á Hlíðarenda

Valur er eitt sigursælasta knattspyrnufélag Íslands frá upphafi og hefur aðeins KR unnið fleiri Íslands- og bikarmeistaratitla samanlagt. Valsmenn hafa 19 sinnum orðið Íslandsmeistarar og 8 sinnum bikarmeistarar en síðasti áratugur hefur hins vegar verið algjörlega titlalaus, allt þar til Willum Þór Þórsson mætti á Hlíðarenda. Valsmenn hafa nefnilega byrjað tímabilið á besta hugsanlega hátt; unnið báða titlana sem hafa verið í boði, fyrst Íslandsmótið í innanhússknattspyrnu í lok nóvember og svo Reykjavíkurmeistaratitilinn í síðustu viku. Valsmenn byrjuðu deildabikarinn líka vel um helgina, Sigurbjörn Hreiðarsson tryggði liðinu sigur á Grindavík, 1-0, í fyrsta leik og hvort sem það er sigurganga stelpnanna í félaginu sem hefur kveikt í karlpeningnum eða tilkoma Willums Þór Þórssonar í þjálfarastólinn er ljóst að Valsmenn eru loksins meistarar á ný. Titlarnir þykja kannski ekki stórir í samanburði við titlana tvo sem verða í boði í sumar en titill er alltaf titill, sérstaklega þegar biðin hefur verið jafnlöng og hjá Hlíðarendafélaginu. Þegar Sigurbjörn Hreiðarsson, fyrirliði Valsmanna, tók við bikarnum fyrir sigur á Íslandsmótinu í innanhússknattspyrnu hafði enginn Valsmaður lyft bikar í 138 mánuði og 15 daga, allar götur síðan Sævar Jónsson tryggði Valsmönnum sigur í Meistarakeppni KSÍ í maí 1993 með tveimur mörkum í 2-1 sigri á ÍA og tók síðan við bikarnum í leikslok. Hálfu ári fyrr hafði Sævar lyft bikarnum fyrir sigur í bikarkeppninni, sem er síðasti stóri titill karlaliðs félagsins, en Valur vann þá KA 5-2 í úrslitaleik. Reykjavíkurmeistaratitilinn, sem Valsmenn tryggðu sér með sigri á erkifjendunum í KR í vítaspyrnukeppni í undanúrslitunum, er líka táknrænn þegar litið er á söguna, því síðast þegar Valsmenn urðu Reykjavíkurmeistarar fylgdu þeir því eftir með því að vinna Íslandsmeistaratitilinn um haustið. Valsmenn unnu fimm Íslandsmeistaratitla á árunum 1976 til 1987 en frá því að Þorgrímur Þráinsson lyfti bikarnum í september 1987 hefur engum Valsmanni tekist að komast í tæri við Íslandsbikarinn góða. Nú er að sjá hvort velgengi Valsliðsins nái eitthvað fram á sumar eða einskorðist bara við vetrar- og vormótin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×