Innlent

Yrðu slæm úrslit fyrir borgarbúa

"Það væri slæmt fyrir borgarbúa ef úrslit kosninga yrðu á þennan veg," segir Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Samkvæmt könnun Fréttablaðsins fengi Sjálfstæðisflokkurinn hreinan meirihluta ef kosið væri nú. Steinunn Valdís segir útkomu Samfylkingarinnar góða en telur eðlilegt að staða Sjálfstæðisflokksins mælist sterk um þessar mundir. "Mikið hefur verið fjallað um framboðsmál sjálfstæðismanna að undanförnu, fókusinn hefur verið á þeim. En fyrir Samfylkinguna eru þetta fínar niðurstöður og í samræmi við fylgi flokksins í borginni í síðustu þingkosningum." Rúm fjörutíu prósent aðspurðra tóku ekki afstöðu og telur Steinunn Valdís líklegt að þar séu á ferðinni kjósendur Reykjavíkurlistans sem enn eru að átta sig á þeirri stöðu að listinn býður ekki fram í næstu kosningum. Steinunn Valdís segir Samfylkinguna ekki líða fyrir neikvæða umræðu í garð Reykjavíkurlistans en greinilegt sé að samstarfsflokkarnir, Framsóknarflokkur og Vinstri grænir gjaldi hennar. "Þessar niðurstöður benda til þess að slagurinn standi milli Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×