Innlent

Skólahald ekki hafið á Suðureyri

Kennsla við Grunnskólann á Suðureyri hófst ekki í síðustu viku, eins og annars staðar á landinu, vegna byggingaframkvæmda við skólalóðina, sem eru hálfu ári á eftir áætlun. Netútgáfa Bæjarins besta á Ísafirði greinir frá þessu. Þar kemur fram að foreldrar og forráðamenn barna í skólanum hafi fengið tilkynningu á fimmtudag um að skólayfirvöld geti ekki ábyrgst öryggi barnanna vegna byggingapalla við skólann, en mikið af leiksvæði skólans er einnig undirlagt vegna framkvæmda við íþróttahúsið. Skólastjórinn segir í samtali við blaðið að unnið verði að því um helgina að fjarlægja pallana og hreinsa afklippur af járni og áli af skólalóðinni svo öryggi barnanna verði uppfyllt. Börnin hafa verið boðuð í skólann á morgun. Byggingu íþróttahússins átti að vera lokið seinnihluta apríl en er nú útlit fyrir að það verði ekki tekið í notkun fyrr en í október.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×