Innlent

Er ekki míní-Alþingi

"Það er einfaldlega verið að reyna að koma í veg fyrir það að skoðanir sem eru óþægilegar fyrir stjórnarflokkana heyrist á fjórðungsþinginu," segir Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins, eftir fjórðungsþing Vestfjarða sem haldið var um helgina. Hann segir á vef sínum að Birna Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, hafi viljað skerða málfrelsi þingmanna sem boðnir eru á þingið í kjölfar ræðu sem Sigurjón hélt og deildi hart á framgöngu stjórnvalda í málefnum fjórðungsins. Hefur hún lagt fram tillögu að breyitingum þingskapa sem kveði harðar á um málfrelsi, setu- og tillögurétt þingmanna á fjórðungsþinginu. Tillagan var samþykkt. "Ég lít einfaldlega svo á að fjórðungsþingið sé ekki vettvangur fyrir þingmenn til að karpa um það hver sé bestur heldur að þetta sé sá vettvangur fyrir sveitarstjórnarmenn til að tala um málefni fjórðungsins en undanfarin ár hefur mér fundist sem þingmenn líti á þetta sem einhverskonar "míní"-alþingi," segir Birna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×