Innlent

Skip farin til síldveiða

Fyrsta síldveiðiskipið er komið á síldarmiðin út af Austfjörðum og eins og oft áður eru það Hornfirðingar sem ríða á vaðið. Jóna Eðvalds SF hélt síðdegis í gær fyrst skipa til síldarleitar á þessu hausti en veiðar máttu hefjast 1. september. Bræla var á hefðbundnum síldarmiðum út af Austfjörðum í nótt og í morgun og urðu skipverjar á Jónu ekki varir við síld. Sigurður Ægir Birgisson skipstjóri á von á að veðrið gangi niður með kvöldinu og ætlar hann þá að leita að hinni dyntóttu síld í Reyðarfjarðardýpi. Hann segir togarsjómenn lítið sem ekkert hafa orðið vara við síld fyrir austan en segir að eitthvað hafi sést til síldar fyrir vestan land. Ekki er á vísan að róa þegar kemur að síldveiðum en í gegnum tíðina hefur fyrsta haustsíldin oft komið að landi í kringum 20. september. Í fyrra hófst vinnsla á síld ekki af krafti á Austurlandi fyrr en í október en stór og góð síld fannst hins vegar fyrir vestan land í september. Upphafskvótinn á síldarvertíðinni er 110 þúsund tonn og eru Skinney – Þinganes og Síldarvinnslan með mestu veiðiheimildirnar; hátt í 15 þúsund tonn hvort félag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×