Erlent

Skógareldar og þurrkar í S-Evrópu

Brakandi þurrkur veldur vandræðum í suðurhluta Evrópu. Skógareldar geisa þar og hafa valdið miklu tjóni. Víða þarf að skammta vatn. Hundruð slökkviliðsmanna hafa barist við elda í Provence í Suðaustur-Frakklandi. Tekist hefur að slökkva tvo, stóra eldu en hættan er ekki enn liðin hjá. Þurrkarnir hafa ekki einungis leitt til skógarelda heldur hefur vatnsskömmtun verið tekin upp víða. Sundlaugar eru alls staðar tómar og er fólk beðið um að fara ekki of oft í sturtu og sturta ekki alltaf niður. Á Spáni er svipaða sögu að segja. Á Norðvestur-Spáni tókst að hemja tvo elda en í suðurhlutanum kviknuðu aðrir í staðinn. Ekki færri en tíu skógareldar hafa lagt stór landsvæði í rúst. Yfirvöld á Spáni segja kornuppskeru sumarsins í hættu. Allt bendir til þess að hún verði meira en helmingi minni en í fyrra. Frá því að mælingar hófust, um 1940, hefur aldrei verið jafn þurrt, og mikill hiti gerir illt verra: en hann var víða yfir fjörutíu stigum um helgina. Í Portúgal eiga slökkviliðsmenn svo líka fullt í fangi með að hafa hemil á eldtungum sem hafa læst sig í skrjáfþurrt skóglendi. Vatnskortur hefur gert það mun erfiðara að slökkva eldana en víða í Suður-Evrópu eru árfarvegir svo gott sem þurrir og stöðuvötn sum hver orðin að hálfgerðum pollum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×