Erlent

Íranar taka upp fyrri iðju

Íranar hófu í gær vinnslu úrans, Vesturveldunum til mikillar gremju. Búist er við að þau þrýsti á Sameinuðu þjóðirnar að beita Írana efnahagsþvingunum fyrir vikið. Í nóvember síðastlinum hættu Íranar að gera tilraunir til auðgunar úrans svo að ekki yrði gripið til þvingana gegn þeim en í gær tóku þeir upp fyrri iðju. Þá tóku eðlisfræðingar í kjarnorkuvinnslustöðinni í Isfahan að vinna gas úr hráu úrani en það er fyrsta stig auðgunar úrans. Gasið verður þó ekki leitt í gegnum skilvindur um sinn en það er nauðsynlegt til að auðga það. Boðað hefur verið til neyðarfundar í stjórn Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar til að ræða stöðu mála. Ríkisstjórnir Bandaríkjanna, Frakka, Þjóðverja og Breta hafa þrýst mjög á Írana að reyna ekki að auðga úran. Enda þótt Íranar staðhæfi að þeir hyggist eingöngu ætla að vinna úran til raforkuframleiðslu þá óttast Vesturveldin að þeir hyggist smíða kjarnorkusprengju. Þau hafa boðist til að sjá Írönum fyrir kjarnorkueldsneyti sem einungis er hægt að nota til raforkuframleiðslu auk annarrar efnahagsaðstoðar. Íranar hafa hins vegar hafnað þessum tilboðum og er því búist við að málinu verði nú vísað til öryggisráðs SÞ sem gæti beitt landið refsiaðgerðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×