Innlent

Þarf hugsanlega að loka deildum aftur í Kópavogi

MYND/GVA

Hugsanlegt er að loka þurfi deildum á ný í leikskólum Kópavogsbæjar eftir að ástandið hafði batnað allnokkuð frá því sem það var snemma í haust. Enn vantar í starfsfólk í nokkur stöðugildi og þá hafa nokkrir starfsmenn sagt upp frá og með áramótum.

Í Kópavogi hefur ástandið á leikskólum bæjarins batnað allnokkuð frá því í haust þegar það vantaði í um 20 stöðugildi á leikskólana. Gerður Guðmundsdóttir, leikskólaráðgjafi hjá Kópavogsbæ, segir að það vanti í um 6-7 stöðugildi nú og búið sé að opna þær deildir sem lokað var fyrr í haust vegna manneklu. Aðeins einni deild á 16 leikskólum bæjarins þurfi nú að loka snemma, eða klukkan tvö.

Gerður segir haustið hafa verið með þeim erfiðari sem hún hafi upplifað og starfsfólk leikskólanna sé orðið langþreytt vegna mikils álags sem rekja má til manneklunnar. Þá segir hún leikskólana ekki hafa getað tekið á móti börnum sem áttu að fá inni í haust vegna vandans.

Við þetta bætist að nokkrir starfsmenn hafa sagt upp frá og með áramótum og ekki er búið að manna þeirra stöður. Stefnir í að það vanti fólk í fjórtán stöðugildi eftir áramót ef fram fer sem horfir. Gerður segir að ef ekki takist að manna þær stöður þurfi hugsanlega að grípa til svipaðra aðgerða og gert hefur verið í haust, þ.e. að loka deildum. Hún segist þó full bjartsýni á að málið leysist og ekki þurfi að koma til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×