Innlent

Landhelgisgæslan að þrotum komin

Í fjárlögum er gert ráð fyrir að ríkið leggi Landhelgisgæslunni til 1,3 milljarða króna. Óvíst er hvort það fé hrekkur til rekstrarins.
Í fjárlögum er gert ráð fyrir að ríkið leggi Landhelgisgæslunni til 1,3 milljarða króna. Óvíst er hvort það fé hrekkur til rekstrarins. Mynd/guðmundur

Landhelgisgæslan stendur veikum fótum og ekki er fyrirséð að endar nái saman á næsta ári. Staða Gæslunnar er mjög veik. Það vantar peninga í reksturinn, segir Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar, en hann situr í fjárlaganefnd.

"Ég má ekki tala um þetta mál," segir Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar. "Það á að kaupa nýtt skip og flugvél en það skortir fé til þess að reka þetta," segir Georg.

Heimildir herma að fjárhagsvandi Landhelgisgæslunnar sé svo alvarlegur að rekstrarhorfurnar fyrir árið 2006 séu svipaðar og hjá fyrirtæki sem stefni í gjaldþrot. Gæslan á útistandandi björgunarlaun og óinnheimt úr Landhelgissjóði, segir Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og varaformaður fjárlaganefndar. Hann segir að þarna sé um heilmikla peninga að ræða.

"Við töldum samt að það þyrfti að styrkja stofunina og ákváðum þess vegna að setja fjörutíu milljónir í reksturinn í fjáraukalögum sem voru afgreidd í síðustu viku," segir Einar Oddur.

Þessar fjörutíu milljónir eru ætlaðar til þess að endar nái saman á þessu ári. Í frumvarpi til fjárlaga næsta árs er gert ráð fyrir að Landhelgisgæslan hljóti rúma 1,3 milljarða króna úr ríkissjóði. Til samanburðar má geta að þetta er þetta svipað og framlag ríkisins til reksturs þjóðkirkjunnar.

"Landhelgisgæslan, eins og aðrar fjárfrekar stofnanir, gerir náttúrulega kröfur um peninga. Þeir réðu þarna nýjan fjármálastjóra og þá lagðist einhvern veginn niður innheimtan," segir Einar Oddur og telur að ástandið sé orðum aukið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×