Innlent

Risna hækkar en ferðir ekki

Ferða-, risnu- og aksturs­kostnaður forsætisráðuneytisins jókst um fjörutíu prósent frá árinu 2003 til ársins 2004. Risnukostnaðurinn einn og sér jókst úr tæpum 13 í liðlega 23 milljónir króna hjá forsætisráðuneytinu, um rúm áttatíu prósent, og er það hlutfallslega langmesta hækkunin á einum lið milli ára.

"Aukning risnukostnaðar nemur aðeins ellefu milljónum í krónum talið og skýrist af stórum viðburðum, eins og ráðherrafundi Norðurlandanna, fundi heilbrigðisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, kostnaði vegna heimastjórnarársins og sextíu ára afmæli lýðveldisins," segir Steingrímur Ólafsson, upplýsingafulltrúi forsætisráðherra. Ferðakostnaður allra ráðuneyta nam um 2,3 milljörðum króna árið 2004 og lækkaði frá árinu áður um eitt prósent.

Bifreiðakostnaðurinn hækkaði um 2,6 prósent, um 31 milljón króna. Risnukostnaðurinn nam 327 milljónum króna og hækkaði um tíu prósent frá árinu 2003. Jóhanna Sigurðardóttir, Samfylkingunni, spurði fjármálaráðherra um áðurgreindan kostnað. Í svarinu kemur fram að lækkun útgjalda af þessum liðum frá árinu 2002 nemur í heild tæpum 320 milljónum króna á verðlagi ársins 2004. Því telur ráðherra ekki tilefni til að krefjast meiri sparnaðar á þessum liðum umfram aðra þætti í rekstri ráðuneyta og ríkisstofnana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×