Innlent

Bráðamóttaka opnuð við Vog

Tilkynnt um opnun nýrrar bráðamóttöku. Það var glatt yfir Vogsmönnum og góðvinum þeirra enda opnar bráðamóttaka þar í dag og verið er að tryggja rekstur hennar næstu þrjú árin. Frá vinstri: Hendrik Berndsen, Björgólfur Guðmundsson, Þórarinn Tyrfingsson og Jóhannes Jónsson.
Tilkynnt um opnun nýrrar bráðamóttöku. Það var glatt yfir Vogsmönnum og góðvinum þeirra enda opnar bráðamóttaka þar í dag og verið er að tryggja rekstur hennar næstu þrjú árin. Frá vinstri: Hendrik Berndsen, Björgólfur Guðmundsson, Þórarinn Tyrfingsson og Jóhannes Jónsson.

Ný bráðamóttaka fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga við Sjúkrahúsið Vog verður opnuð í dag. Slík bráðamóttaka var starfrækt þangað til í byrjun þessa árs en þá reyndist óhjákvæmilegt að loka henni vegna fjárskorts.

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, kynnti þessa opnun fyrir blaðamönnum í gær ásamt Björgólfi Guðmundssyn, Jóhannesi Jónssyni og Hendrik Berndsen, en þeir höfðu beitt kröftum sínum til að fjármagna rekstur bráðamóttökunnar. Sjö fyrirtæki hafa fengist til að leggja fjármagn í reksturinn en um 45 milljónir þarf til hans árlega og því þarf 135 til að tryggja reksturinn næstu þrjú árin.

Þeirri spurningu var varpað fram hvort það væri hyggilegt að hefja reksturinn þó ekki væri búið að fullfjármagna hann og var Björgólfur fljótur til svars: "Hefði verið beðið eftir því að byggja Vog þangað til nægir fjármunir væru til að reisa húsið þá væri sennilega enginn okkar edrú," sagði hann sposkur.

Með opnuninni verður mögulegt að taka á móti 250 fleiri sjúklingum á ári og sagði Þórarinn að bráðainnlagnirnar gætu því orðið á bilinu fimm til sjö hundruð á ári.

Þórarinn sagði að það hefði tekið á starfsfólk sitt að geta ekki tekið við fólki sem komið var í vanda og sóttist eftir meðhöndlun. Það væri því mikið ánægjuefni að nú gætu menn fengið meðhöndlun þegar hennar er óskað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×