Erlent

Hæstiréttur hnekkir sýknudómi

Hæstiréttur Pakistan hefur hnekkt dómi áfrýjunardómstóls í máli konu sem nauðgað var af hópi fólks og krafist þess að ódæðismennirnir yrðu handteknir. Makhtar Mai var nauðgað af hópi karla í refsingarskyni árið 2002 fyrir meintar misgjörðir þrettán ára bróður hennar en hann var sakaður um að hafa átt vingott við stúlku úr öðrum ættbálki. Hæstiréttur sneri í morgun sýknudómi yfir þrettán mönnum og hefur krafist þess að þeir verði handteknir að nýju. Í þeim hópi eru fimm menn af sex sem nauðguðu Mai og átta menn sem sátu í öldungaráði bæjarins sem fyrirskipaði að henni skyldi nauðgað. Réttað verður yfir mönnunum þegar þeir verða komnir í varðhald og refsing þeirra ákvörðuð. Héraðsdómur hafði upphaflega sýknað öldungaráðið en dæmt sexmenningana til dauða. Þeir dómi var vísað til áfrýjunardómstóls í Lahore sem sýknaði fimm mannanna vegna skorts á sönnunargögnum og breytti dómnum yfir þeim sjötta í lífstíðarfangelsi. "Ég er ánægð og ég vona að þeim verði refsað sem niðurlægðu mig," sagði Mai eftir að niðurstaða dómarans var kunngjörð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×