Erlent

Myntbreyting í Rúmeníu

Rúmenskum milljónamæringum mun fækka verulega á föstudaginn. Ástæðan hefur þó ekkert með efnahagsástandið að gera, heldur stendur til að taka fjögur núll aftan af gjaldmiðlinum, sem nefnist lei. Meðalmánaðarlaun í landinu eru í kringum 7,5 milljón leia, sem jafngildir um fimmtán þúsund krónum. Nú borga Rúmenar 36.000 lei fyrir evruna, en þau verða 3,6 eftir breytinguna. Seðlabankastjóri Rúmeníu, Mugur Isarescu, er himinlifandi. Hann segir það nefnilega mikið vandamál að halda utan tölur með svona mörgum núllum, auk þess sem engin virðing sé borin fyrir gjaldmiðli sem dragi endalausan núllahala á eftir sér. Íslendingar ættu að kannast við þetta, þótt núllin hafi bara verið tvö sem tekin voru aftan af krónunni 1. janúar 1981.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×