Innlent

Bakarar og eigandi afgreiða

"Ég er búinn að vera í þessum bransa í þrjátíu ár svo ég veit það vel að oft er erfitt að fá starfsfólk á þessum tíma en ég man ekki eftir því að ástandið hafi nokkurn tíman verið svona slæmt," segir Birgir Páll Jónsson eigandi Nýja Kökuhússins í Kringlunni en hann sinnir nú afgreiðslustörfum þar sem ekki hefur tekist að manna þau störf hjá fyrirtækinu. Birgir segir þetta vera mikið álag á aðra starfsmenn. "Ég er til dæmis ekki með neitt afgreiðslufólk í bakaríinu svo bakarar afgreiðar bæði og baka eins og stendur." Hann segir að nú vanti fimm til sex starfsmenn í fulla vinnu hjá fyrirtækinu en um tuttugu og fimm manns starfa þar venjulega svo fimmta hver staða er nú ómönnuð. "Við sem sinnum þjónustustörfum getum ekki ráðið útlendinga nema þá ef þeir tali þokkalega íslensku svo við stöndum svolítið verr hvað þetta varðar en mörg önnur fyrirtæki," útskýrir Birgir. Hann segir að víðast hvar sé svipað ástatt á matsölustöðum. Það sannreyndi blaðamaður á rölti um veitingarsal Kringlunnar en þar er auglýst eftir starfskrafti við annan hvorn matsölustað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×