Erlent

Deilt um fyrstu drög stjórnarskrár

Tíminn hleypur frá þeim sem vinna að stjórnarskrá Íraks. Enn er deilt um fyrstu drög sem skila á von bráðar, en samkvæmt þeim verður íslamskur réttur grundvöllur ríkisins. Fátt gott hefur heyrst af lífi Íraka á tímum Saddams Husseins en eitt er þó ljóst: staða kvenna þar var mun betri en í hinum íslamska heimi. Það gæti nú breyst miðað við þau drög að stjórnarskrá sem írakska dagblaðið As-Sabah birti fyrir nokkrum dögum. Þar er jafnrétti tryggt svo fremi að það stangist ekki á við Sharia-lög. Sharia-lög byggjast á kóraninum og er talið að þetta þýði í raun gjörbreytta stöðu kvenna í íröksku samfélagi. Nokkur hundruð karlar og konur mótmæltu þessu fyrir skömmu en afleiðingarnar gætu verið víðtækar. Lögleiða á fjölkvæni á ný og trúardómstólar skera úr deilumálum sem snerta erfðir, fjölskyldurétt og hjónabönd. Þeir gætu komist að þeirri niðurstöðu samþykki fjölskyldunnar þyrfti áður en kona gæti gengið að eiga karl. Fréttamaður Spiegel segir fjölmarga sjíta sem vinna að stjórnarskránni horfa til Teheran og trúarríkisins Írans þar sem klerkar hafa lokaorðið um velflest í þjóðlífinu. Formaður trúarfrelsisráðs Bandaríkjanna segir stjórnarskránna hefta trúfrelsi verulega. Enn er þó aðeins um drög að ræða og um þau er deilt enda bæði súnnítar og Kúrdar fullir efasemda og krefjast í raun aðskilnaðar sem gæti lokið með klofningu Íraks. Salama al-Khafaji, þingmaður á írakska þinginu, segir að flest ákvæði stjórnarskrárinnar séu ásættanleg en ágreiningur sé um nokkur. Það þurfi að ræða þau frekar og leggja meiri vinnu í þau. Að því vinni þingmenn hörðum höndum og þegar upp verði staðið verði stjórnarskráin samþykkt af hálfu allra ríkja innan Íraks. Lokadrögin eiga að liggja fyrir næsta mánudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×