Innlent

Vill ljúka róðri á Menningarnótt

Hringferð Kjartans Haukssonar á árabát um landið fer senn að ljúka. Hann er nú staddur á Stokkseyri þar sem hann bíður eftir lygnari sjó en hann stefnir ótrauður á að ná til höfuðborgarinnar fyrir Menningarnótt. Kjartan Hauksson ræðari er nú á lokasprettinum í kringum landið á árabát sínum. Báturinn brotnaði rétt úti fyrir Hjörleifshöfða þegar Haukur átti 140 kílómetra leið fyrir höndum og tók það kappann rétt tæpa 30 tíma að róa þá leið. Kjartan vonast eftir að geta lagt af stað frá Stokkseyri á morgun en róðurinn er til styrktar hjálparliðasjóði Sjálfsbjargar og hafa nú safnast rétt tæpar þrjár milljónir króna í sjóðinn. Aðspurður hvort hann sé ekki einmana segir Kjartan að stundum finni hann til einmanaleika, sérstaklega á nóttunni þegar mesta myrkrið sé. Þá geti hann ekki einu sinni stytt sér stundir með því að horfa út í loftið. Aðspurður hvort hann rói þá á nóttunni játar Kjartan því og segist ekki geta annað. Hann rói svo langar leiðir, eins og við suðurströndina, þar sem hann komist ekki í land. Hann verði að klára sína áfanga og því sé ekki um annað að ræða en róa eins og vitleysingur. Spurður hvenær hann stefni að því að komast til Reykjavíkur segist Kjartan vonast til að ná þangað um næstu helgi, á Menningarnótt. Hann muni róa inn í gömlu höfnina og vonandi nái hann tónleikunum um kvöldið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×