Innlent

Ginntar hingað á fölskum forsendum

"Mér var tjáð að ég hefði dágóðan tíma til að skoða landið og fengi minn frítíma en þegar til kom stóð ekki neitt sem hún sagði," segir Sabrina Maurus, ein hinna þýsku stúlkna sem hingað voru fengnar til vinnu að tilstuðlan þýskra eigenda Cafe Margret á Breiðdalsvík fyrr í sumar. Hún er nú farin af landi brott peningalaus og allslaus eftir rúmlega mánaðarvist sem allar stúlkurnar eru sammála um að hafi verið ómannleg. Stúlkurnar svöruðu allar auglýsingum í þýskum dagblöðum þar sem óskað var eftir starfsfólki til Íslands. Áttu launin að vera 20 þúsund krónur á mánuði, frítt húsnæði og matur gegn sex til tíu tíma vinnu á dag. Þegar til kom urðu fimm stúlkur að deila 20 fermetra bjálkakofa, vinnudagurinn varð allt að fjórtán tímum dag hvern og þeim var gert að vera kyrrar á staðnum í frítíma sínum ef vera skyldi að kaffihúsið fylltist af viðskiptavinum. Það var fyrir heppni að nokkrir íbúar bæjarins fengu vitneskju um aðstöðu stúlknanna og höfðu strax samband við stéttarfélagið Vökul sem gerði athugasemdir í júní. Lofuðu rekstraraðilar, hjónin Horst Muller og Margret Bekemeier, bót og betrun og sögðust ekki hafa vitað um íslensk lög og reglur. Í kjölfarið hættu þær fjórar stúlkur sem komu þar til starfa í vor störfum en tveimur vikum síðar voru aðrar fjórar komnar í staðinn á sömu kjörum. Eru þær allar hættar nú og eru þrjár þeirra farnar til síns heima. Eiga þær enn útistandandi laun en sökum þess að þær hættu neita eigendurnir að greiða. Er stéttarfélagið að skoða mál þeirra í dag. Í síðustu viku þegar Fréttablaðið náði tali af Margret Bekemeier, öðrum eigandanum, viðurkenndi hún að fjórar stúlkur hefði unnið hjá henni fyrr í sumar en því harðneitar hún í dag. Segir hún engar þýskar stúlkur hafa unnið hjá sér í sumar aðra en frænku sína sem enn vinni hjá sér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×