Innlent

Steingrímur talar mest

MYND/Vísir

Þrátt fyrir að þing sé nú einungis hálfnað hefur sá þingmanna sem lengst hefur staðið í ræðustól, talað í rúman hálfan sólarhring. Það kemur ef til vill fáum á óvart að formaður Vinstri Grænna, Steingrímur J Sigfússon, skuli fara þar fremstur í flokki. Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, talaði hins vegar minnst.

Þó stjórnmálaskýrendur og áhugamenn um kraftmikið þing hafi margir hverjir kvartað undan leiðinlegu þingi á þessu hausti þá er þó fjarri því eins og þingmenn hafi haldið höndum niður með síðum í þinginu, en þingmenn rétta jafnan upp hönd til að biðja um orðið hjá forseta.

Alls var talað í ræðustól Alþingis í rúmar 180 klukkustundir á þeim tveimur mánuðum sem þingmenn höfðu til að koma sínu á framfæri í haust, eða rúma viku. Þannig stigu þingmenn rúmlega 3000 sinnum í pontu, ýmist til að flytja ræður eða gera athugasemdir við ræður annarra þingmanna.

Steingrímur J Sigfússon, formaður Vinstri grænna, trónir á toppnum yfir lengstan samanlagðan ræðutíma á haustþinginu. Steingrímur talaði í 13 klukkustundir rúmar, tveimur tímum meira en næstu menn á listanum - sem eru raunar hans eigin flokksmenn flest hver. Stystan samanlagðan ræðutíma þingmanna á haustþinginu á svo Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Birgir  talaði samanlagt í 20 mínútur á haustþinginu, eða rétt tæpan kaffitíma meðalmannsins.

En um hvað er verið að tala, skiptir það ekki meira máli en ræðutíminn eða hvað? Rithöfundur nokkur sagði eitt sinn að íslensk þjóðmálaumræða einkenndist öðru fremur af tveimur mönnum að rífast um fisk.

Þetta hefur breyst ef marka má upplýsingar um það sem mest var rætt á þinginu í haust, eða peninga. Fjármál ríkisins tróna þar á toppnum, enda fjárlagaumræðu nýlokið. Peningamál ríkisins voru rædd í samtals 60 klukkustundir á þinginu í ár .




Fleiri fréttir

Sjá meira


×