Innlent

Tólf fangar í ónýtu fangelsi

Hegningarhúsið við Skólavörðustíg 
Fangelsið hefur verið rekið á undanþágum um áratuga skeið.
Hegningarhúsið við Skólavörðustíg Fangelsið hefur verið rekið á undanþágum um áratuga skeið.

Tólf fangar sitja nú í Hegningarhúsinu á Skólavörðustíg, sem rekið hefur verið á undanþágum um áratuga skeið. Í bráðabirgðaskýrslu eftirlitsnefndar Evrópuráðsins segir það óásættanlegt að gæsluvarðhaldsfangar skuli vistaðir þar, enda standist það engan veginn þær kröfur sem nú séu gerðar til slíkra fangelsa.

Þetta kemur fram í nýrri greinargerð um stöðu fangelsismála hér á landi, sem forstjóri Fangelsismálastofnunar, Valtýr Sigurðsson, hefur tekið saman. Þar kemur einnig fram að fangelsið í Kópavogi sé allsendis ófullnægjandi til að hýsa kvenfanga í langri afplánun. Að auki eigi það að hverfa á næstu árum samkvæmt skipulagi Kópavogsbæjar. Í því fangelsi dvelja nú tíu fangar. Forstjóri Fangelsismálastofnunar bendir á að í ítarlegri skýrslu Stefáns P. Eggertssonar verkfræðings um uppbyggingu fangelsanna, sem hann vann fyrir dómsmálaráðuneytið, hafi verið talið að 266 milljónir króna þyrfti á árinu 2006 til fangelsismála.

Í nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi séu taldar fram 50 milljónir króna til að hefja framkvæmdir á Akureyri, auk þess sem gert sé ráð fyrir að framkvæmdir við Kvíabryggju verði fjármagnaðar með ónotuðum fjárheimildum frá fyrri árum. Þær upphæðir nema 27 milljónum króna, samkvæmt upplýsingum forstjórans. Hann segir enn fremur að ekki sé hægt að leggja Hegningarhúsið niður fyrr en fangelsið fyrirhugaða á Hólmsheiði verði tilbúið. Áætlanir gera ráð fyrir að það verði fyrir árslok 2009. Undanþága fyrir Hegningarhúsið rennur hins vegar út í febrúar 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×