Innlent

200 samningslausir sjómenn

Versnandi kjör. Á milli eitt og tvö hundruð smábátasjómenn, sem starfa fyrir stærri útgerðir landsins, eru samningslausir og sitja því ekki við sama borð og aðrir í landinu.
Versnandi kjör. Á milli eitt og tvö hundruð smábátasjómenn, sem starfa fyrir stærri útgerðir landsins, eru samningslausir og sitja því ekki við sama borð og aðrir í landinu.

"Ég er nokkuð viss um að við erum eina stéttin í landinu sem hefur enga samninga og því dapra stöðu gagnvart okkar vinnuveitendum," segir Þorkell Pétursson, smábátasjómaður frá Skagaströnd. Hann er í hópi tæplega 200 sjómanna sem hafa enga samninga við útgerðir þær er eiga þá smábáta er þeir starfa á.

Þorkell segir það þýða að kjör þeirra fari hægt og bítandi versnandi og að þeir séu réttlausir með öllu. "Við höfum leitað stuðnings hjá öllum sem okkur dettur í hug en án mikils árangurs enn sem komið er. Undirtektir við beiðnum okkar hjá smábátafélögum og aðildarfélögum hafa verið litlar. Þetta snýst um kjör okkar en einnig annað sem sjálfsagt þykir eins og lífeyrisgreiðslur, tryggingar, veikindarétt og annað þvíumlíkt og við viljum að sett verði um þetta lög ef ekkert fer úr að rætast því kjör okkar verða lakari ár frá ári enda engin samtök að baki okkur eins og hjá öllum öðrum í þessu þjóðfélagi."

Fyrirspurn til Árna Magnússonar félagsmálaráðherra vegna réttarstöðu smábátasjómannanna var lögð fram á þingi í síðustu viku. Svaraði hann því til að ekki hefði verið leitað formlega til hans ráðuneytis vegna þessa en yrði það gert yrði farið yfir málið enda sjálfsagt og eðlilegt að smábátasjómenn eins og aðrir kæmu sér saman um kjarasamning. Eðlilegra væri þó að aðilar vinnumarkaðarins og launafólk semdu sjálf um kjör sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×