Innlent

Enn þá vantar starfsfólk

Leikskólabörn. Rúmlega 60 starfsmenn vantar á leikskóla höfuðborgarinnar. Börnum á biðlista fer hins vegar fækkandi.
Leikskólabörn. Rúmlega 60 starfsmenn vantar á leikskóla höfuðborgarinnar. Börnum á biðlista fer hins vegar fækkandi.

Um fjörutíu börn bíða enn eftir leikskólavist í borginni og 63 starfsmenn vantar á leikskólana. Börnum á biðlista hefur fækkað úr 57 síðan í nóvember. Þetta kemur fram í könnun Menntasviðs Reykjavíkurborgar. Ómönnuðum stöðugildum hefur fjölgað um þrjú frá því í nóvember.

Þessu veldur að mestu leyti starfsmannaekla í leikskólum Grafarvogs, en þar hefur ómönnuðum stöðugildum fjölgað úr níu í átján. Starfsmannaekla hefur líka verið á frístundaheimilum borg­ar­innar.

"Það eru að koma inn umsóknir frá skólafólki sem fer í jólafrí og við erum að vona að það haldi áfram að vinna á frístundaheimilunum í hlutastarfi þegar skólinn byrjar aftur," segir Sigrún Sveinbjörnsdóttir, verkefnisstjóri hjá Íþrótta- og tómstundaráði, spurð um stöðuna á frístundaheimilunum.

Þar hefur börnum á biðlista fækkað stöðugt í allt haust og nú eru 172 börn sem bíða eftir plássi. "Það vantar mikið starfsmenn í Breiðholtið en Vesturbærinn og Austurbærinn eru betur settir en úthverfin," segir Sigrún þegar hún er spurð hvort munur sé á milli borgarhluta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×