Innlent

Safnað á fölskum forsendum

Félagsmál Mæðrastyrksnefnd í Kópavogi er ósátt við hvernig Mæðrastyrksnefnd Reykavíkur kynn­ir sig þegar styrkjum er safnað fyrir jólin. "Það er óeðlilegt að hringja og kynna sig bara sem Mæðrastyrksnefnd. Á landinu starfa sjö slíkar," segir María Marta Einarsdóttir, gjaldkeri Mæð­ra­styrks­nefnd­ar í Kópavogi.

María segir að ár­viss fjárstyrkur Toyota til Mæðra­styrks­nefndar í Kópavogi hafi nú runnið til Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur. "Við bentum þeim á þetta og var auðvitað tekið mjög vel," segir María, en fyrir­tækið ákvað að aðstoða nefndina í Kópavogi líka, þó ekki með fjár­styrk.

"Mæðrastyrksnefnd í Reyk­ja­vík sinnir eingöngu Reyk­­vík­ing­um en kynnir sig sem Mæð­ra­styrks­nefnd og fólk heldur náttúrlega að það sé allt landið," segir María og nefnir Grindavík, Hafn­ar­fjörð, Garðabæ, Selfoss og Þor­láks­höfn. "Svo finnst okkur sárt að heyra að fyrir­tæki í okkar heimabæ séu búin að styrkja þegar við erum að leita eftir stuðningi. Þá hafa þau styrkt Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur og hafa gert það á röngum forsendum því þetta eru ekki landssamtök."

Aðalheiður Frantzdóttir, fram­kvæmda­stjóri Mæðr­a­­styrks­nefnd­ar Reykja­vík­ur, segir misskilning að nefndin styrki ekki aðra en Reykvíkinga og telur því ekki óeðlilegt að nefndin leiti víða fanga með styrki fyrir jólin. "Núna fyrir jólin erum við til dæmis í samstarfi við Hjálparstarf kirkjunnar og hingað kemur fólk af öllu landinu og sækir til okkar," segir Aðalheiður.

Þá áréttar Aðalheiður að Mæð­ra­styrks­nefnd safni ekki pen­ing­um nema fyrir jól. Þá sé lokið sölu á geisladiski sem gefinn var út undir nafni Mæðrastyrksnefndar. "Ég held að allir viti hvað Mæðra­styrks­nefnd Reykja­vík­ur er, en hún er 76 ára og að henni stan­da átta kvenfélög," segir hún og telur ekki að fólk geti rugl­að henni við aðrar nefndir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×