Innlent

Ráðherra skorti kjark og vilja

Varðskipið Ægir. Þótt gróin séu tímans sár á varðskipinu er enn ekki gróið um heilt vegna þess hvernig að endurbótunum var staðið.
Varðskipið Ægir. Þótt gróin séu tímans sár á varðskipinu er enn ekki gróið um heilt vegna þess hvernig að endurbótunum var staðið.

"Hvorki dómsmálaráðherra né fjármálaráðherra höfðu vilja, kjark né skilning á því að láta vinna verkið hér innanlands og því fór sem fór," segir Hákon Hákonarson, formaður Félags málmiðnaðarmanna á Akureyri og ritari Samiðnar.

Fram kom í svari Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra í síðustu viku að kostnaður við endurbætur á varðskipinu Ægi hefði verið 11 milljónum minni hjá pólsku slippstöðinni Morska en tilboð Slippstöðvar Akureyrar hljóðaði upp á. Þá vantar í útreikning dómsmálaráðherra kostnað vegna aukaverka og eftirlits.

Sigurjón Þórðarson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sem lagði fyrirspurnina fram, segir að séu þeir þættir teknir með í reikninginn og þar að auki hagræðingin af því að halda verkkunáttunni innanlands hefði verið mun hagkvæmara að láta gera endurbæturnar hér á landi.

"Þar að auki hefði skattpeningur vegna þessa þá komið aftur í ríkiskassan," segir Sigurjón. Hann segir einnig að ekki hefði þurft að bjóða verkið út erlendis þar sem það var undir 500 milljónum króna.

Hákon segir að tilboðin hafi verið sambærileg, að minnsta kosti hafi tilboðið frá Slippstöðinni ekki verið dýrara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×