Innlent

Stríðandi framsóknaröfl

Fyrir ekki margt löngu var greint frá því á forsíðu Fréttablaðsins og síðar í fréttaskýringum blaðsins að bakland Halldórs Ásgrímssonar innan Framsóknarflokksins væri ótryggt. Um þetta var rætt býsna opinskátt og voru ólíklegustu menn orðaðir við vaxandi andspyrnu við formanninn.

Meginskýringin á ólgunni gat legið í viðvarandi fylgisvanda flokksins í þéttbýli suðvesturhornsins þar sem tvö af hverjum þremur atkvæðum í landinu hafa fasta búsetu.

Þegar Halldór virðist nú hafa náð vopnum sínum - án þess að fylgið hafi aukist - hafa þessar raddir þagnað. Myndugleikinn og valdið segir til sín. Halldór ítrekar að hann sé ekki á leið úr pólitík.

Á sama tíma gerist það að ungur aðstoðarmaður forsætisráðherranns, Björn Ingi Hrafnsson, býður sig fram til forystu á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosninarnar í vor.

Sumum innan þingflokksins þykir Björn Ingi hafa komist upp með brellur og pot í skjóli Halldórs. Alfreð Þorsteinssyni borgarfulltrúa var skákað í hátæknisjúkrahúsið af forsætisráðherra.

Hver annar hafði vald til þess að rýma fyrir Birni Inga? Björn Ingi er varaþingmaður Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi Reykjavíkur. Man einhver eftir því að hann hafi tekið sæti á þingi fyrir Jónínu Bjartmarz?

Í sálfræðinni er til hugtakið yfirfærsla en með því er átt við að einstaklingur varpi bagalegum vanda í afkimum sálar sinnar yfir á aðra. Með þetta hugtak að vopni mætti setja fram þá tilgátu að ýmsir þingmenn Framsóknarflokksins, einkum þeir sem þurfa að finna sér kjördæmi og sæmilega öruggt þingsæti, hafi nú flutt óánægju sína með formanninn yfir á Björn Inga sem um síðir gæti ógnað pólítískri framtíð einhverra ef ekki rætist úr með fylgið.

Þarna stendur hnífurinn í kúnni. Situr Halldór á rökstólum með þingmönnum sínum í þéttbýlinu til þess að finna leiðir til að auka fylgið?

Situr hann með Birni Inga og vill bæta hag flokksins með því að skipta út forystumönnum? Sitja þéttbýlisþingmenn á sellufundum og ráða ráðum sínum gegn Birni Inga og jafnvel formanninum?

Þótt þingmenn Framsóknarflokksins geti talað saman um framgang einstakra stefnumála má telja fullvíst að enginn þeirra segi umbúðalaust við formanninn að nauðsynlegt sé að skipta um forystu flokksins.

Og sennilega hefur formaðurinn ekki heldur sagt fullum hálsi við þingmenn sína að til þess að ná betri árangri verði að skipta út nokkrum þingmönnum.

Það er eðli hvers stjórnmálaflokks að vera stríðandi heild, hópur til sóknar og varnar, sagði Guðmundur Finnbogason eitt sinn. Er það eðli hvers framsóknarmanns að vera stríðandi afl gegn samherjum sínum?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×