Innlent

Tollvörður grunaður um þjófnað

Lögreglan í Reykjavík rannsakar nú hugsanlega aðild tollvarðar að þjófnaðarmáli. Fjórir einstaklingar sem störfuðu hjá Samskipum urðu þá uppvísir að því að stela áfengi sem geymt var í vöruhúsi fyrir tollskyldan varning sem átti að fara til förgunar. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins leikur grunur á að umræddur tollvörður hafi tekið hluta af áfenginu.

Fólkið sem um ræðir vann hjá Samskipum og dótturfyrirtæki þess. Það hafði aðgang að vöruhúsi, þar sem tollskyldur varningur er geymdur, mismikinn þó. Þegar grunur vaknaði um að áfengið hefði ekki skilað sér allt til förgunar höfðu yfirmenn viðkomandi sviðs Samskipa samband við tollyfirvöld og lögreglu um rannsókn málsins. Starfsmennirnir fjórir reyndust hafa tekið áfengi í mismiklum mæli.

Snorri Olsen tollstjóri segir rétt að hafa það í huga þegar eitthvað af þessum toga gerist að menn séu saklausir þar til annað komi í ljós. "Það er mjög eðlilegt að svona mál séu skoðuð af okkar hálfu, út frá okkar sjónarmiðum um öryggis­eftirlit, hvort eitthvað bjáti á í okkar framkvæmd. Þá getur auðvitað komið í ljós að eitthvað sé ekki með felldu. Það fer síðan eftir því hvað sannast í svona máli hver viðbrögðin eru," segir hann og kveður brot í starfi vera meðhöndluð samkvæmt gildandi starfsmannalögum opinberra stofnana.

Viðbrögð geti verið allt frá tiltali eða skýringu á reglum til brottvikningar samkvæmt lögbundinni framkvæmd. Snorri sagði að viðkomandi tollverði hefði ekki verið vikið úr starfi, enda stæði rannsóknin enn yfir. Ásgeir Karlsson, yfirlögregluþjónn fíkniefnadeildar lögreglunar, kvaðst staðfesta að þetta hefði gerst en sagði jafnframt að ekki yrðu gefnar efnislegar upplýsingar um þetta mál meðan rannsókn á því stæði yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×