Innlent

Tilkynnir vanhæfi bréflega

Bogi Nilsson ríkissaksóknari hefur með bréfi til dómsmálaráðherra, dagsettu 24. nóvember, sagt sig formlega frá saksókn í þeim átta ákæruliðum Baugsmálsins sem enn eru til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hafði áður þennan sama dag óskað eftir því bréflega að Bogi upplýsti og staðfesti formlega að hann hefði vikið sæti í umræddum hluta málsins.

Bogi segir í svarbréfi sínu til dómsmálaráðherra sama dag að vanhæfisástæður sínar eigi við ákæruliðina átta ekkert síður en hina 32 sem vísað var frá dómi. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að Bogi hefði aldrei sagt sig formlega frá meðferð ákæruliðanna átta. Af þeim sökum hefði ekki verið formlega rétt staðið að því að setja Sigurð Tómas Magnússon saksóknara í þeim hluta málsins.

Sigurður kærði þessa niðurstöðu til Hæstaréttar og er búist við niðurstöðu dómsins á næstu dögum. Bréfaskrifin fela í sér að Sigurður Tómas hlýtur nú formlega að teljast bær til þess að fjalla um ákæruliðina átta. Taki hann sæti hafa verjendur lýst því að þeir muni krefjast dómsúrskurðar um hæfi dómsmálaráðherra til að skipa Sigurð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×