Erlent

ESB hótar að refsa fangelsisríkjunum

Szymany-flugvöllur í Póllandi.  Talið er að flugvöllurinn hafi verið notaður sem áfangastaður fangaflugvéla.
Szymany-flugvöllur í Póllandi. Talið er að flugvöllurinn hafi verið notaður sem áfangastaður fangaflugvéla.

Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur tjáð forystumönnum Evrópusambandsins að hún þurfi lengri frest til að bregðast við ásökunum um að leyniþjónustan CIA reki leynifangelsi í Evrópu og fljúgi þangað með grunaða hryðjuverkamenn.

Franco Frattini, sem fer með dóms- og lögreglumál innan framkvæmdastjórnar ESB, skýrði frá því í gær að lítið hefði orðið um svör frá Hvíta húsinu og bandaríska utanríkisráðuneytinu við spurningum sambandsins um málið í síðustu viku. "Þeir báðu okkur um meiri tíma til að meta stöðuna.

Eins og sakir standa höfum við engin svör fengið." Frattini sagði enn fremur að hverju því aðildarríki sem uppvíst yrði að því að hafa heimilað CIA að reka slík fangelsi innan sinna landamæra yrði refsað, mögulega með því að atkvæðisréttur þess yrði afturkallaður um skeið í stofnunum ESB.

Rekstur leynifangelsa væri skýrt brot á sáttmálum sambandsins. Aleksander Kwasniewski, forseti Póllands, lýsti því afdráttarlaust yfir í sjónvarpsviðtali í gær að CIA hefði aldrei rekið leynifangelsi í Póllandi. Þá viðurkenndi Frattini að Vasile Blaga, innanríkisráðherra Rúmeníu, hefði fullvissað sig um að ásakanir um að ríkisstjórn landsins hefði heimilað slík fangelsi væru ósannar.

Hann bætti því hins vegar við að ef fangaflutningar og leynilegt varðhald hefðu átt sér stað án vitneskju stjórnvalda í viðkomandi löndum væri jafnframt um mjög alvarlegt mál að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×