Innlent

Greiddi lækniskostnaðinn

Heimilisfólkið við Langholtsveg 42. Guðrún og dóttir hennar urðu ekki fyrir alvarlegu heilsutjóni en öðru máli gegnir um soninn og föður Guðrúnar.
Heimilisfólkið við Langholtsveg 42. Guðrún og dóttir hennar urðu ekki fyrir alvarlegu heilsutjóni en öðru máli gegnir um soninn og föður Guðrúnar.

"Við förum eftir öllum stöðlum og þessi efni sem við notum hafa verið margrannsökuð og eiga ekki að geta verið hættuleg enda eru þau notuð í stórborgum úti um allan heim og hafa verið svo í 30 ár," segir Jón Guðni Kristinsson, eigandi Hreinsibíla.

Þeir hafa verið að fóðra skólplagnir í hverfum borgarinnar og hafa íbúar á Hólsvegi og Langholtsvegi orðið fyrir heilsutjóni sem þeir rekja til framkvæmdanna.

Fram kom í Fréttablaðinu í gær að Soffía Jónasdóttir sem býr við Hólsveg hafi meðal annars fengið útbrot á hendur og fætur. Fór hún þess á leit við Jón Guðna að hann greiddi henni þann lækna- og lyfjakostnað sem hún varð að leggja í vegna þessa.

"Já, ég gerði það en það var aðeins til að afgreiða málið, ég ætlaði ekkert að fara í neitt stríð við þessa konu en ég trúði því ekki að heilsutjón hennar væri vegna þess sem við vorum að gera," segir Jón Guðni.

"Ég hef beðið embættismenn á umhverfisviði um gögn og upplýsingar um málið og svo verður þetta tekið fyrir á undirbúningsfundi okkar á mánudag," segir Árni Þór Sigurðsson, formaður umhverfisráðs. Hann telur líklegt að mælingar og rannsóknir verði gerðar hjá fölskyldunni þar sem asmaveikur maður var hætt kominn og átta ára drengur þurfti að flytja að heiman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×