Erlent

Ísraelsstjórn fellur

Verkamannaflokkurinn í Ísrael samþykkti í gær á flokksþingi að slíta stjórnarsamstarfi við Ariel Sharon og Likud-flokkinn. Félagar í Verkamannaflokknum fóru þar að vilja nýs leiðtoga flokksins, Amirs Peretz, sem segir stjórnina hafa aukið fátækt í landinu.

Kosningar áttu að fara næst fram í nóvember á næsta ári, en nú verður þeim líklega flýtt þangað til í mars. Sjálfur er Sharon sagður velta því mjög fyrir sér að yfirgefa Likud-flokkinn, sem hann átti þátt í að stofna árið 1973. Hann hefur ekki gefið frá sér neina yfirlýsingu um þetta, en ýmsir stjórnmálamenn og fjölmiðlar í Ísrael telja töluverðar líkur á því að hann muni stofna nýjan flokk eftir klofning í Likud út af brottflutningi hersins frá Gazasvæðinu.

Láti hann verða af því mun pólitískt landslag verða gjörbreytt þegar til kosninga kemur. Þar að auki eru Palestínumenn núna að farnir búa sig undir kosningar, sem verða haldnar 25. janúar.

Hamas-hreyfingin, sem ber ábyrgð á ýmsum ofbeldisverkum, býður í fyrsta sinn fram til kosninga og gæti árangur hennar í grafið undan stjórn Mahmoud Abbas, leiðtoga Fatah-hreyfingarinnar sem til þessa hefur farið með völdin í Palestínu. Peretz, sem hefur um langa hríð verið harðskeyttur verkalýðsleiðtogi, kennir bæði Ariel Sharon og Benjamin Netanjahú, fyrrverandi fjármálaráðherra stjórnarinnar, um að fátækt hafi aukist og hinir fátæku hafi verið "auðmýktir".

Varðandi deilur Ísraelsmanna og Palestínumanna sagðist Peretz fylgja því að sameinuð Jerúsalem verði höfuðborg Ísraels, auk þess sem hann segist andvígur því að leyfa palestínskum flóttamönnum að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna í Ísrael. Hann sagðist einnig líta svo á að sjálfstætt ríki Palestínumanna verði bæði Ísraels­mönnum og Palestínumönnum í hag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×