Erlent

Eyðing skóga viðvarandi vandamál

Ekkert lát á skógarhöggi. Berum svæðum á borð við þetta í norðurhluta Amazon-regnskógarins í Brasilíu fjölgar dag frá degi. Þrátt fyrir mikinn þrýsting annarra þjóða og stofnana er lítið lát á skógarhöggi þar í landi.
Ekkert lát á skógarhöggi. Berum svæðum á borð við þetta í norðurhluta Amazon-regnskógarins í Brasilíu fjölgar dag frá degi. Þrátt fyrir mikinn þrýsting annarra þjóða og stofnana er lítið lát á skógarhöggi þar í landi.

Lítið lát er á skógareyðingu í heiminum samkvæmt nýrri skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna sem birt var í vikunni. Skýrslan sýnir að 7,3 milljónir hektara skóglendis hverfa ár hvert en það samsvarar stærð Panama eða Sierra Leone.

Þótt þessar tölur veki ugg í hugum margra benda skýrslu­höfundar á að árangur hafi þrátt fyrir allt náðst. Sambærilegar tölur frá árunum milli 1990 og 2000 voru 8,9 milljónir hektarar árlega af skógum sem felldir voru eða tæplega 0,2 prósent alls skóglendis í heiminum.

Segir að þrátt fyrir þennan góða árangur séu skógar að hverfa á alvarlegum hraða og enn harðari aðgerða sé þörf. Skóglendi mælist nú um þrjátíu prósent alls landsvæðis á jörðinni en stærstur hluti þeirra skóga finnst í aðeins tíu löndum sem mörg hver hafa ekki náttúruvernd hátt á stefnuskránni.

Þar má helst nefna Brasilíu en skógarhögg er einnig viðvarandi í Indónesíu, Perú, Rússlandi, Kína, Indlandi og í lýðveldinu Kongó. Sérstakt áhyggjuefni er að þau tvö ríki sem vaxa hvað hraðast í dag, Kína og Indland, munu bæði að líkindum þurfa mikið meira magn af við í komandi framtíð en hingað til hefur verið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×