Innlent

Fáir kjósa í stórum sveitarfélögum

stefán
Kjósendur fámennari sveitarfélaga eru mun viljugri til að mæta á kjörstað en íbúar stærstu sveitarfélaganna í sameiningarkosningunum. Búið er að loka kjörstað í Mjóafirði, fámennasta sveitarfélagi landsins. Þar höfðu sjötíu og átta prósent kjósenda greitt atkvæði, eða allir þeir sem gátu og vildu kjósa eins og Mjófirðingar orðuðu það. Hafnarfjörður er fjölmennasta sveitarfélagið þar sem kosið er um sameiningu, þar höfðu tæp átta prósent kjósenda kosið klukkan fjögur. Á sama tíma höfðu rúm ellefu prósent kosið í næst fjölmennasta sveitarfélaginu, Akureyri. Helgi Teitur Helgason, formaður kjörstjórnar á Akureyri, sagði kosninguna ganga öðru vísi fyrir sig en Akureyringar eru vanir, venjulega mæti margir á morgnana en færri þegar líður á daginn. Nú hafi hins vegar flestir mætt milli tvö og fjögur. Kjörsókn á Akureyri er mun minni en þegar Akureyringar greiddu atkvæði í forsetakosningunum í fyrra, þá höfðu 34 prósent kjósenda greitt atkvæði klukkan fjögur, sem er þrefalt hærra hlutfall en núna. Kjörsóknin er hvað dræmust í Reykjanesbæ. Þar höfðu rúm fimm prósent kjósenda kosið klukkan þrjú en á sama tíma hafði rúmur þriðjungur greitt atkvæði í Garðinum, öðru tveggja sveitarfélaga sem lagt er til að sameinist Reykjanesbæ.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×