Erlent

Búist við frestun þjóðaratkvæðis

Búist er við því að bresk stjórnvöld tilkynni á morgun að þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá Evrópusambandsins, sem fram átti að fara í Bretlandi eftir um ár, verði frestað um óákveðinn tíma. Þetta kemur í kjölfar þess að bæði Frakkar og Hollendingar höfnuðu stjórnarskránni í síðustu viku en með því telja margir að hún sé dautt plagg. Talskona Tonys Blairs, forsætisráðherra Bretlands, sagði í dag að Jack Straw utanríkisráðherra gæfi út yfirlýsingu á morgun um stjórnarskrána en ekki er talið líklegt að bresk stjórnvöld vilji ganga svo langt að gefa út dánarvottorð fyrir hana heldur aðeins fresta fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu um hana. Stuðningur við stjórnarskrána í Danmörku, Portúgal, Póllandi og Tékklandi, sem öll eiga eftir að taka afstöðu til hennar, hefur minnkað mikið frá því að Frakkar og Hollendingar felldu hana en leiðtogar aðildarríkja sambandsins munu hittast og ræða þá stöðu sem upp er komin 16. júní næstkomandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×