Innlent

Ræðismaður leitar að Lilju

Hilmar S. Skagfield, ræðismaður Íslendinga í Tallahassee, hefur leitað að Lilju Aðalbjörgu Ólafsdóttur Hansch frá fyrsta degi er fellibylurinn Katrín fór yfir Bandaríkin. Hann hefur búið í Bandaríkjunum í 55 ár og nýtir góð sambönd sín þar ytra við leitina. Meðal annars hefur hann fengið lögreglumann til að leita að Lilju eftir óhefðbundnum leiðum. Hilmar fann í fyrradag íslenskan karlmann sem einnig var leitað. Sá var með móður sinni og voru þau bæði heil á húfi. Hilmar segir manninn hafa búið í bæ sem hafi nær jafnast við jörðu. "Ég veit ekki hvort maðurinn missti eigur sínar. Ég var bara ánægður að vita að hann væri á lífi og heill á húfi." Ræðismaður Íslendinga í Houston, Ólafur Árni Ásgeirsson, segir ástandið á hamfarasvæðunum hryllilegt. Í gær hafi þúsundir manna komið til Houston frá New Orleans. Fólkinu sé komið fyrir í stórri íþróttahöll til bráðabirgða. Nú séu allir þurrir, njóti loftkælingar í hitanum og matar sem það hafi skort.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×