Innlent

Tónlistarhús gerbreyti svip borgar

Nýtt tónlistarhús í Reykjavík verður áhrifamikið kennileiti og gerbreytir svip borgarinnar. Það er hinn þekkti listamaður Ólafur Elíasson sem á heiðurinn af þeirri tillögu, sem þótti bera af öðrum í samkeppni um útlit hússins. Eftir að hafa farið í gegnum forval og hlotið náð fyrir augum sérstakrar matsnefndar var það Portus Group, sem er í eigu Landsafls, Nýsis og Íslenskra aðalverktaka, sem stóð uppi með vænlegasta tilboðið í hönnun, byggingu og rekstur tónlistarhússins. Ólafur Elíasson hannaði útlit þess og meginhugmyndin er að skapa kristallað form með fjölbreyttum litum. Að hluta til stendur húsið á landfyllingu sem gerð verður í Austurbugtinni þar sem hafnarbakkinn verður færður fram. Samanlögð stærð tónlistarhússins og ráðstefnumiðstöðvarinnar er 23 þúsund fermetrar. Þar verður tónleikasalur sem tekur 1800 manns í sæti, ráðstefnusalur, kammermúsíksalur með 450 sætum og minni salur fyrir um 200 áheyrendur. Svona hús kostar 12 milljarða og á að standa undir miklum væntingum, meðal annars að verkja aukna alþjóðaathygli á landi, þjóð og menningu og gera Íslendinga hæfari til að keppa við aðrar þjóðir um menningarviðburði og ráðstefnuhald. Ljóst er að við horfum fram á gjörbreytta ásýnd miðborgarinnar. Auk 23 þúsund fermetra tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar er gert ráð fyrir hóteli sem verður álíka stórt á vesturhluta lóðarinnar og ráðist verður í uppbyggingu á aðliggjandi lóðum sem Portus kaupir byggingarétt á. Alls nemur því heildarbyggingarmagnið yfir 80 þúsund fermetrum. Næstu tvær vikur gefst fólki kostur á að kynna sér líkan af vinningstillögunni í Þjóðmenningarhúsinu og einnig aðrar glæsilegar tillögur sem komu til greina en munu þó ekki rísa við höfnina í Reykjavík.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×